Sameiginlegir ábyrgðaraðilar

Sameiginlegir ábyrgðaraðilar

Samkvæmt niðurstöðu Evrópudómstólsins frá 5. júní 2018 bera stjórnendur Facebook “like” síðna sameiginlega ábyrgð með Facebook vegna söfnunar og notkunar persónuupplýsinga á samfélagsmiðlinum. Þessi ákvörðun hefur bein áhrif á þau fyrirtæki sem halda úti “like” síðum á Facebook og getur einnig haft afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem halda úti slíkum síðum.

Samkvæmt Evrópudómstólnum þá geta stjórnendur “like” síðna fengið aðgang að miklu magni af tölfræðiupplýsingum um þá sem heimsækja síðurnar, í gegnum “Facebook Insights”. Facebook safnar þessum upplýsingum í gegnum kökur (e. cookies) sem eru geymdar í tæki notanda í tvö ár. Stjórnendurnir geta svo notað þessar upplýsingar til þess að búa til persónusnið yfir þá markhópa sem þau vilja ná til.

Það var álit Evrópudómstólsins að vegna möguleikans fyrir stjórnenda “like” síðu að taka ákvörðun um tilgang vinnslunnar og hvernig upplýsingarnar eru unnar og notaðar, bæru stjórnendur slíkra síðna og Facebook sameiginlega ábyrgð á meðför persónuupplýsinganna.

Einnig tók dómstóllinn það fram að ekki væri um að ræða jafna ábyrgð Facebook og síðustjórnenda í öllum tilvikum og færi það eftir hvers konar síðu væri um að ræða og hvernig upplýsingar um notendur væru notaðar.

Dómurinn á ekki einvörðungu við um Facebook heldur er um að ræða grundvallarákvörðun um skyldur ábyrgðaraðila og umfang sameiginlegrar ábyrgðar. Niðurstaðan getur þannig átt við annars konar miðla og þjónustur og þarf að meta hvar ábyrgðin liggur í hverju tilviki fyrir sig.

Hér má nálgast álit Evrópudómstólsins

Réttur barna til friðhelgi einkalífs

Réttur barna til friðhelgi einkalífs

Forúrskurður Evrópudómstólsins í máli Google Spain lagði grundvöllinn að því að rétturinn til að gleymast var skráður sem hluti af evrópsku persónuverndarlöggjöfinni. Það fól ekki í sér að það ætti að eyða upplýsingunum beint, heldur að koma í veg fyrir að upplýsingarnar birtust í leitarniðurstöðum leitarvéla fyrirtækisins. Telja verður að þetta sé mjög mikilvægur réttur í ljósi þess magns af persónuupplýsingum sem ratar á Internetið sérstaklega í ljósi mikillar notkun samfélagsmiðla. Bæði getur verið um að ræða upplýsingar sem einstaklingar setja sjálfviljugir á Internetið en einnig upplýsingar sem þangað hafa verið settar af þriðju aðilum.

Rétturinn til að gleymast einna mikilvægastur fyrir einstaklinga sem deila upplýsingum um sig sem börn, eða sem er deilt um þau af þriðja aðila. Foreldrar setja inn myndir og upplýsingar um börn sín á samfélagsmiðla, sem getur verið góð leið til þess að leyfa fjölskyldumeðlum og vinum að fylgjast með uppvexti barnanna. Foreldrar átta sig hins vegar ekki alltaf á hvaða langtímaáhrif það getur haft að deila slíkum upplýsingum á Internetið. Oft er um að ræða myndir af börnum þar sem þau eru sofandi, í skólanum eða upplýsingar um hvernig verið er að taka á hegðunarvandmálum þeirra.

Rétturinn til að gleymast er mikilvægur fyrir sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og gott er að hafa í huga að börn eiga einnig rétt til friðhelgi einkalífs.

Alþingi ekki undanskilið

Alþingi ekki undanskilið

Persónuvernd fær alveg nokkur rokkstig í þessu máli! Þegar nýju persónuverndarlögin tóku gildi var ákveðið að undanskilja Alþingi frá gildissviði laganna – allt til að gæta vel að þrískiptingu valdsins.

Í þessu máli, sem fjallar um birtingu upplýsinga um fyrrum þingmann á vef Alþingis, tekur Persónuvernd þá afstöðu að Alþingi sé ekki undanskilið gildissviði laganna nema þegar það fer með lögformlegt hlutverk sitt skv. stjórnarskrá og því falli þessi tiltekna vinnsla Alþingis undir persónuverndarlögin sem og valdsvið Persónuverndar. Auðvitað ætti þetta að vera svona og eiga við um upplýsingalögin líka!

Réttindi einstaklinga rokka!

Hér má nálgast úrskurð Persónuverndar .