Forúrskurður Evrópudómstólsins í máli Google Spain lagði grundvöllinn að því að rétturinn til að gleymast var skráður sem hluti af evrópsku persónuverndarlöggjöfinni. Það fól ekki í sér að það ætti að eyða upplýsingunum beint, heldur að koma í veg fyrir að upplýsingarnar birtust í leitarniðurstöðum leitarvéla fyrirtækisins. Telja verður að þetta sé mjög mikilvægur réttur í ljósi þess magns af persónuupplýsingum sem ratar á Internetið sérstaklega í ljósi mikillar notkun samfélagsmiðla. Bæði getur verið um að ræða upplýsingar sem einstaklingar setja sjálfviljugir á Internetið en einnig upplýsingar sem þangað hafa verið settar af þriðju aðilum.

Rétturinn til að gleymast einna mikilvægastur fyrir einstaklinga sem deila upplýsingum um sig sem börn, eða sem er deilt um þau af þriðja aðila. Foreldrar setja inn myndir og upplýsingar um börn sín á samfélagsmiðla, sem getur verið góð leið til þess að leyfa fjölskyldumeðlum og vinum að fylgjast með uppvexti barnanna. Foreldrar átta sig hins vegar ekki alltaf á hvaða langtímaáhrif það getur haft að deila slíkum upplýsingum á Internetið. Oft er um að ræða myndir af börnum þar sem þau eru sofandi, í skólanum eða upplýsingar um hvernig verið er að taka á hegðunarvandmálum þeirra.

Rétturinn til að gleymast er mikilvægur fyrir sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og gott er að hafa í huga að börn eiga einnig rétt til friðhelgi einkalífs.